20.3.2007 | 23:10
Sögur af norskum eplum
Svo er það stýring milliliðarins í matvöruversluninni.
Ég man eftir dæminu sem ég heyrði úti í Noregi um árið. Þá fékk ég að heimsækja norska landbúnaðarráðuneytið og kynna mér smáframleiðslu bænda þar í landi.
Í Noregi hefur verið stunduð eplarækt um aldir, og eru til um 60 tegundir af eplum sem mynda mjög skemmtilega fjölbreytni. Fyrir um 20 árum stefndi í að aðeins 3 tegundir af eplum yrðu eftir í ræktun. Heildsalar og matvöruverslanir voru búnar að reikna út að þrjár tegundir epla seldust langbest, græn epli, rauð epli og rauðgræn epli...... Ekki voru aðrar eplategundir teknar í sölu um skeið og allt leit út fyrir að margra alda fjölbreytni myndi deyja út.
En sem betur fer var gripið inn í þessa vitleysu sem stefndi í að vera stórslys í norskum landbúnaði.
Og hvað kennir þetta manni ? Ekki treysta um of á milliliðinn, að hann hafi yfirvitlega skynsemi til að segja framleiðandunum hvað hann á að framleiða og hvað neytandinn á að kaupa.
En það eru einhver óþekkt öfl sem stjórna því hvað maður étur oní sig. Ekki bað ég um að verða háður sykri og súkkulaði. Sem betur fer er ég hættur að drekka sykraða gosdrykki og koffín drykki... ég las um árið að matvælaiðnaðurinn hefði gríðarleg völd þegar kemur að neyslustýringu. Í Bandaríkjunum séu það sykurframleiðendur sem stjórni því að sykur er settur í nær alla matvöru.
Markaðsfræði matvælaframleiðenda segir að ef þú vilt auka sölu matvöru þá er ódýrasta ráðið að bæta í hana sykri. Sykur er tiltölulega ódýrt hráefni, og skilar mun meiri sölu en t.d. áróður um hollustu eða vandaðri vöruumbúðir.
Punktur
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
20.3.2007 | 23:06
Að éta sig ómögulegan....
Í síðustu viku var í fréttum að neysla fitusnauðra mjólkurvara væri áhættuþáttur hvað varðar frjósemi kvenna... nú bíður maður bara eftir fréttum af áhrifum undanrennu á okkur karlana.
Kosturinn við að drekka undanrennu dagsdaglega er að þegar maður kemst í léttmjólk þá smakkast hún eins og mjólkin beint úr kúnni - þannig er nú allt afstætt.
Ég heyrði líka um árið, að hollara sé að borða vörur með ekta sykri en gervisykri.... og að gerilsneyddar vörur væru stórhættulegar... - já og fitusprengdar mjólkurvörur væru með stórsködduðum prótínum sem færu illa í ónæmiskerfið... já svona er nútímalífið flókið.
Ef maður gæti bara drukkið geitamjólk sem er hollasta mjólk í heimi alla daga - bara beint úr kúnni, ehe,, þe. huðnunni.
Botninn tók nú samt úr þegar samhengi fannst milli skyndilegs dauðdaga og neyslu á efnafræðilega tilbúnum andoxunarefnum sem bætt eru í matvæli. Betra er að treysta á E og C vítamín úr náttúrulegum matvælum.
Hvað með C vítamíntöflurnar ?
Ég mæli með rauðvíni, dökku súkkulaði og grænu te.
14.3.2007 | 19:42
Hin grænu gildi bænda
Nú keppast allir við að vera grænir og vænir í gjörðum og orðum. Þessi árátta er nú svo sem ekkert nýmæli... kannast t.d. einhver við hið forna hugtak "umhverfiskommi" ?
En um hvað snýst þessi græna hugsun ? Umhverfismál finnst mér almennt túlkuð of þröngt... þessi mál eru um svo miklu meira en að spara vatn og minnka mengun. Samfélagslegu gildin gleymast oft í umræðunni sem litast oftast af náttúrulegum og efnahagslegum gildum.
Íslenskur landbúnaður og samfélög til sveita falla vel inn alla græna hugsun. Og þessvegna líka "fair trade" þankaganginn. Þessi viðleitni neytanda að líta sér nær í vöruvali er sífellt að aukast - að forðast vörur sem hafa vafasaman uppruna eða hafa verið fluttar óraveg, þess vegna frá þarnæstu heimsálfu.
Að hugsa grænt er t.d. að velja vörur og þjónustu frá smærri aðilum - í þeirri trú að framlegðin og afraksturinn af viðskiptunum sitji eftir í vasa frumframleiðandans, en ekki hjá fjarlægum fjármagnseiganda.
Upprunamerktar vörur úr íslenskri sveit hljóta því að vera mjög heitar vörur.
Sbr. t.d. frétt um álit almennings á íslenskum matvælum : http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/frett.html?nid=1256671
Veit einhver hve gömul þessi umhverfisvakning er ? Ég man eftir vistfræðitíma í MH árið 1992 þar sem kennarinn kom hlaupandi inn í skólastofuna með mikinn doðrant... "hún er komin út !" sagði hann nokkuð upp með sér, og sagði okkur að hann héldi á úrdrætti úr niðurstöðum Rio ráðstefnunnar sem hafði verið haldið fyrr um árið. "ha ha þú meinar Bío ráðstefnan" man ég að ein meðvituð skólasystir mín sagði þá glottandi.. vildi meina að þessi samkoma Sameinuðuþjóðanna væri bara show og sýndarmennska.... kannski leit svo út fyrir í allt of mörg á eftir...
Seinna var farið að vinna skipulega eftir einni ályktun Rio ráðstefnunnar, Staðardagskrá 21, og frasinn "think global, act local" varð einkennisorð þessarar vinnu. Sjálfbær þróun komst í tísku, vistvænar og umhverfisvottaðar vörur og græn almenn hugsun nauðsynleg.
Nú er lag fyrir íslenskan landbúnað að efla vaxtarbrodda og nýsköpun í upprunamerktum matvælum sem seldar eru "Beint frá býli" bóndans ( sjá www.beintfrabyli.is ) - Það þarf ekki að fara í miklar markaðsrannsóknir til að sjá að íslenskir neytendur "kaupa" þessar vörur - enda eru flestir Íslendingar ættaðir úr sveit og sjá sveitasæluna í rósrauðri rómantískri glýju.
Hver dreymir ekki um að eignast gommu af milljónum, kaupa sér jörð og stunda sjálfþurftarbúskap og lifa af landsins gagni og gæðum ? Hlusta svo á lækinn í stað þess að streða í umferðinni í bænum....
13.3.2007 | 10:08
Bændur halda 12 tíma ræður
Ég upplifði mitt fyrsta búnaðarþing í síðustu viku og er eiginlega ennþá að jafna mig. 5 daga þinghald 49 kjörinna búnaðarþingsfulltrúa, 35 þingmál, 7 starfsnefndir, 251 ræður, 12 klukkustundir í flutningi og 31 afgreidd mál.
Búnaðarþing er samt bara svipur einn miðað við lýsingu eldri manna á þingum á síðustu öld - Tveggja vikna þing og útvarpað frá þinghaldi seinni vikuna.
Mest var rætt um endurskoðun á vörnum gegn búfjársjúkdómum, kolefnisbindingu lands og bótarétt landeigenda vegna framkvæmda í almannaþágu.
Málefni sem báru á góma voru t.d. vöruverðsmyndun, upprunamerking matvæla, innflutt erfðabreytt matvæli, bygging nautastöðvar, forritamál búgreina, háhraðatengingar, lausaganga hunda í beitilöndum, forkaupsréttur ábúenda, þjóðlendumál. Já og svo var minnst á klámhunda og annan óþjóðalýð.
Þinghaldið var mjög fróðlegt fyrir nýliða eins og mig og opnuðust augun fyrir ýmsum staðreyndum um íslenskan landbúnað. Þó ég sé ekki nýr í félagsmálum bænda þá er það að sitja búnaðarþing samt toppurinn í starfi búnaðarfélaga, búgreinafélaga og búnaðarsamtaka. Hér er komið með mikilvægustu málin og þau rædd og afgreidd af fólki sem hefur nær óendanlegan áhuga og þekkingu á aðstæðum íslenskra bænda.
Þannig að þeir sem á annað borð hafa áhuga á íslenskum landbúnaði ættu að kynna sér ályktanir þingsins inni á www.bondi.is
7.3.2007 | 00:13
Bændur nokkuð brattir !
Ég sat setningu Búnaðarþings Bændasamtaka Íslands sl. sunnudag og verð að segja að þetta er með flottustu setningarathöfnum sem ég hef setið. Þetta skiptið kem ég til búnaðarþings sem kjörinn fulltrúi ferðaþjónustubænda og líkt og hinir 46 þingfulltrúarnir fullur eldmóð og trú á íslenska bændur og íslenskar sveitir. Eftir nokkrar fínar ræður, magnaðan karlakórssöng og strengjaspilsatriði voru afhent landbúnaðarverðlaun þeim fjórum bændafjölskyldum sem þetta árið þóttu skara fram úr í vinnu sinnu og trú á íslenskum sveitum.
Samtímis var kynnt skoðunarkönnun sem Capacent Gallup gerði fyrstu tvær vikurnar í febrúar á viðhorfi almennings gagnvart íslenskum landbúnaði og íslenskum matvörum. Niðurstöðurnar vöktu mikla athygli og almenna notalega gæsahúð. 94% þjóðarinnar finnst það miklu máli skipta að á Íslandi verði stundaður landbúnaður til framtíðar. 80% þjóðarinnar finnst það skipta miklu máli að Íslendingar séu ekki öðrum háðir um landbúnaðarafurðir. 79% þjóðarinnar telur að íslenskir bændur beri ekki ábyrgð á háu matvælaverði á Íslandi. 62% þjóðarinnar er tilbún til að greiða hærra verð fyrir íslenskar landbúnaðar afurðir en erlendar.
Og hana nú !
Finna má skoðunarkönnunina á vef Bændasamtakanna á þessari
vefslóð : http://bondi.is/landbunadur/wgbi.nsf/Attachment/konnun_baendur_2007/$file/konnun_baendur_2007.pdf
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.3.2007 | 11:57
Samkeppnishæfni á Íslandi
Fyrir nokkrum dögum kom út skýrsla Alþjóða efnahagsstofnunarinnar um samkeppnishæfni ferðaþjónustu í 124 þjóðlöndum og kemur í ljós að Ísland er í 4. sæti hvað þetta varðar. Það er nú nokkuð gott og væri þá fróðlegt að kanna hvar aðrar atvinnugreinar standa.
T.d. hvar landbúnaður stendur. Hvert er okkar rekstrarumhverfi í samhengi við önnur lönd eða arðrar atvinnugreinar ?
Ef skoðuð eru þau atriði sem voru könnuð hvað varðar ferðaþjónustu þá væri hægt að finna sömu atriði til að kanna þar.
Í könnuninni var tekið tillit til margra þátta eins og stefnumótandi reglur og reglugerðir, umhverfisreglugerðir, öryggi, heilbrigði og hreinlæti, forgangsröðun ferðaþjónustu, skipulag loftsamgangna á jörðu, skipulag ferðamennsku, skipulag upplýsinga- og fjarskiptatækni, verðsamkeppnishæfni í ferðamálaiðnaðnum, mannauði, sýn þjóðarinnar á ferðamennsku og náttúruleg og mennignarleg verðmæti.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.3.2007 | 09:32
Vel hannaður matur frá bændum
Í síðustu viku varð ég vitni að mjög merkilegu stefnumóti bænda og hönnuða úr Listaháskóla Íslands - og satt að segja opnuðust öll skynfærin af hrifningu því afurðir nemenda LHÍ voru vægast sagt vel heppnaðar. Þar mátti smakka á blóðbergsdrykk, og blóðbergsískrapi, skyrkonfekti, rúgbrauðsskyndibita með reyktum silungi og mozarellaosti og geitamjólkurdrykkjum. Veit bloggheimur t.d. að geitamjólk er mestdrukknasta mjólkin í heiminum, og er víst mun hollari en kúamjólk !
Þessu stefnumóti bænda og hönnuða eru gerð vel skil á þessum vefsíðum:
http://www.beintfrabyli.is/frettir-250207.html
http://framtidarlandid.is/baendur-og-honnudir
1.3.2007 | 23:47
Bændur græða !!!
Já nú geta bændur farið að græða meir en gróðursnauða mela og örfoka land. Ef rétt reynist þá markar þessi dagur, 1. mars 2007 tímamót í lífi bænda. Eiginlega nýr bjórdagur til að muna eftir, en það er önnur saga. Spekingar og fræðingar hafa í allan dag reynt að spá hvaða áhrif þessar vsk og vörugjaldalækkanir muni hafa og bestar fundust mér spárnar um að neytendur fái nú loks verðskyn og kaupi loks góðar og hollar vörur, og láti ekkert fá á sig þó sykur, sætindi og gos lækki mest allra matvæla.
Eiginlega öfugvirk neyslustýring ef það er nú til...
Þannig neysluvitund er náttúrulega lykillinn að því að neytendur láti ekki ginnast af ódýrum aukefnaríkum loft- og vatnsbættum matvælum sem útsjónasamir framleiðendur í fjarlægum löndum hafa lagt áralanga vöruþróun í að fullkomna.
Íslenskir matvælaframleiðendur hljóta að standa með pálmann í höndunum frá og með deginum í dag. Sunnlenskur ráðanautur byrjaði reyndar daginn á að ráðleggja bændum að kaupa sér ódýrari dráttarvélar og útlenskar kýr svona til að hámarka afraksturinn.
En leiðin að þessum degi hefur verið torsótt. Þegar ég var að vaxa upp úr foxgrasinu heima fyrir um aldarfjórðungi man ég þegar ég fékk fyrsta þuglyndiskastið mitt fyrir hönd íslensks landbúnaðar. Þá voru fréttatímarnir fullir af fréttum um offramleiðslu á lambakjöti og sjónvarpið sýndi gryfjur fullar af dilkakjöti sem jarðýtur voru að moka yfir. Sýndar voru myndir af gámum á bryggju í Noregi sem í var lambakjöt sem beið ekkert meir en að úldna meira. Norðmenn buðust til að kaupa af okkur nokkurhundruð tonn af kjöti af einhverri ástæðu sem er nú horfið úr barnsminninu.
Nú eru aðrir tímar. Fyrir nokkrum vikum kom fyrirspurn frá Noregi þar sem leitað var lambakjöts til kaups, enda allar birgðir búnar frá síðasta sumri og norskar húsmæður og veitingamenn tilbúnir til að kaupa jafnvel sauða- eða ærkjöt til að hafa á páskaborðinu...
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.2.2007 | 08:39
Breskir bændur á kúpunni
Ég sá frétt í BBC News á helginni þar sem rætt var við formann bændasamtaka þeirra breskra, og viðtal við bændur sem voru að pakka saman og selja síðustu kýrnar. Þeir fullyrtu að breskar verslanir væru að ganga af breskum mjólkuriðnaði dauðum. Aðeins fengust 16 aurar punda (ca ISK 20) fyrir lítrann af mjólk, en til að reksturinn engi upp þyrfti 21 aur punda (ca ISK 27). Bóndinn sem rætt var við sagði að rekstarumhverfið væri búið að harna mikið síðustu 3 ár og engin leið hefði verið að selja mjólkina á hærra verði. Verslanir stjórni verðinu algjörlega. Sonur bóndans, vandræðalaus drengur um tvítugt, sagðist alltaf hafa stefnt að því að taka við búi föður síns, en nú liti ekki út fyrir það.
Svona er nú frjálsa verðumhverfið.....
28.2.2007 | 08:28
Matarást á bændum....
Ég var á Akureyri í gær þar sem kynnt var handbókin Heimavinnsla og sala afurða Beint frá býli bóndans.... þar var boðið upp á BLÓÐBERGS drykk, heimagerðan mozarella ost, heimareykt hangikjöt, manbrauð með fjallagrösum, rúgbrauð, nýtískuleg laufabrauð, magnaðan mysudrykk og heimagerða bjórinn Kalda... Vitnað var í Andra Snæ þar sem hann spyr, afhverju hann hafi ekki matarást á íslenskum bændum og býlum - maður keyrir um sveitir, og matur hlaupandi út um allt, en enginn matur til kaups ! Ég er allavega kominn með matarást á Friðriki V. sem sá um veitingarnar í gær !!! Sjá myndir á www.beintfrabyli.is