1.3.2007 | 23:47
Bændur græða !!!
Já nú geta bændur farið að græða meir en gróðursnauða mela og örfoka land. Ef rétt reynist þá markar þessi dagur, 1. mars 2007 tímamót í lífi bænda. Eiginlega nýr bjórdagur til að muna eftir, en það er önnur saga. Spekingar og fræðingar hafa í allan dag reynt að spá hvaða áhrif þessar vsk og vörugjaldalækkanir muni hafa og bestar fundust mér spárnar um að neytendur fái nú loks verðskyn og kaupi loks góðar og hollar vörur, og láti ekkert fá á sig þó sykur, sætindi og gos lækki mest allra matvæla.
Eiginlega öfugvirk neyslustýring ef það er nú til...
Þannig neysluvitund er náttúrulega lykillinn að því að neytendur láti ekki ginnast af ódýrum aukefnaríkum loft- og vatnsbættum matvælum sem útsjónasamir framleiðendur í fjarlægum löndum hafa lagt áralanga vöruþróun í að fullkomna.
Íslenskir matvælaframleiðendur hljóta að standa með pálmann í höndunum frá og með deginum í dag. Sunnlenskur ráðanautur byrjaði reyndar daginn á að ráðleggja bændum að kaupa sér ódýrari dráttarvélar og útlenskar kýr svona til að hámarka afraksturinn.
En leiðin að þessum degi hefur verið torsótt. Þegar ég var að vaxa upp úr foxgrasinu heima fyrir um aldarfjórðungi man ég þegar ég fékk fyrsta þuglyndiskastið mitt fyrir hönd íslensks landbúnaðar. Þá voru fréttatímarnir fullir af fréttum um offramleiðslu á lambakjöti og sjónvarpið sýndi gryfjur fullar af dilkakjöti sem jarðýtur voru að moka yfir. Sýndar voru myndir af gámum á bryggju í Noregi sem í var lambakjöt sem beið ekkert meir en að úldna meira. Norðmenn buðust til að kaupa af okkur nokkurhundruð tonn af kjöti af einhverri ástæðu sem er nú horfið úr barnsminninu.
Nú eru aðrir tímar. Fyrir nokkrum vikum kom fyrirspurn frá Noregi þar sem leitað var lambakjöts til kaups, enda allar birgðir búnar frá síðasta sumri og norskar húsmæður og veitingamenn tilbúnir til að kaupa jafnvel sauða- eða ærkjöt til að hafa á páskaborðinu...
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:49 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.