14.3.2007 | 19:42
Hin grænu gildi bænda
Nú keppast allir við að vera grænir og vænir í gjörðum og orðum. Þessi árátta er nú svo sem ekkert nýmæli... kannast t.d. einhver við hið forna hugtak "umhverfiskommi" ?
En um hvað snýst þessi græna hugsun ? Umhverfismál finnst mér almennt túlkuð of þröngt... þessi mál eru um svo miklu meira en að spara vatn og minnka mengun. Samfélagslegu gildin gleymast oft í umræðunni sem litast oftast af náttúrulegum og efnahagslegum gildum.
Íslenskur landbúnaður og samfélög til sveita falla vel inn alla græna hugsun. Og þessvegna líka "fair trade" þankaganginn. Þessi viðleitni neytanda að líta sér nær í vöruvali er sífellt að aukast - að forðast vörur sem hafa vafasaman uppruna eða hafa verið fluttar óraveg, þess vegna frá þarnæstu heimsálfu.
Að hugsa grænt er t.d. að velja vörur og þjónustu frá smærri aðilum - í þeirri trú að framlegðin og afraksturinn af viðskiptunum sitji eftir í vasa frumframleiðandans, en ekki hjá fjarlægum fjármagnseiganda.
Upprunamerktar vörur úr íslenskri sveit hljóta því að vera mjög heitar vörur.
Sbr. t.d. frétt um álit almennings á íslenskum matvælum : http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/frett.html?nid=1256671
Veit einhver hve gömul þessi umhverfisvakning er ? Ég man eftir vistfræðitíma í MH árið 1992 þar sem kennarinn kom hlaupandi inn í skólastofuna með mikinn doðrant... "hún er komin út !" sagði hann nokkuð upp með sér, og sagði okkur að hann héldi á úrdrætti úr niðurstöðum Rio ráðstefnunnar sem hafði verið haldið fyrr um árið. "ha ha þú meinar Bío ráðstefnan" man ég að ein meðvituð skólasystir mín sagði þá glottandi.. vildi meina að þessi samkoma Sameinuðuþjóðanna væri bara show og sýndarmennska.... kannski leit svo út fyrir í allt of mörg á eftir...
Seinna var farið að vinna skipulega eftir einni ályktun Rio ráðstefnunnar, Staðardagskrá 21, og frasinn "think global, act local" varð einkennisorð þessarar vinnu. Sjálfbær þróun komst í tísku, vistvænar og umhverfisvottaðar vörur og græn almenn hugsun nauðsynleg.
Nú er lag fyrir íslenskan landbúnað að efla vaxtarbrodda og nýsköpun í upprunamerktum matvælum sem seldar eru "Beint frá býli" bóndans ( sjá www.beintfrabyli.is ) - Það þarf ekki að fara í miklar markaðsrannsóknir til að sjá að íslenskir neytendur "kaupa" þessar vörur - enda eru flestir Íslendingar ættaðir úr sveit og sjá sveitasæluna í rósrauðri rómantískri glýju.
Hver dreymir ekki um að eignast gommu af milljónum, kaupa sér jörð og stunda sjálfþurftarbúskap og lifa af landsins gagni og gæðum ? Hlusta svo á lækinn í stað þess að streða í umferðinni í bænum....
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Sæll Marteinn, viltu nokkuð leiðrétta við nafnið mitt hér á síðunni hjá þér. Ég heiti ekki Anna Rún heldur Anna Runólfsdóttir, stytt Anna Run... bara svona skemmtilegara. Annars frábært að nokkrir sveitavargar skuli finna hvern annan hér.
Anna Runólfsdóttir, 14.3.2007 kl. 23:33
Hver dreymir ekki um að eignast gommu af milljónum, kaupa sér jörð og stunda sjálfþurftarbúskap og lifa af landsins gagni og gæðum ? Hlusta svo á lækinn í stað þess að streða í umferðinni í bænum....
Er það ekki þetta sem allt snýst um? Nokkuð gott. Annars er ég hjartanlega sammála þessum hugleiðingum hérna og sér í lagi varðandi merkingu vara. Þarf að hamra meira á því.
Kv. Bondakall.
Bondakall, 18.3.2007 kl. 11:22
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.